VORVAKA
VORVAKA
Koma seint úr suðurvegi
söngfuglar.
Stormar feykja þeim
óraleiðir afvega
– nærri ókunnum stjörnum.
Seint kemur vorið.
Skógar laufvana
– og komin harpa.
Yngstu bjarkir tárast.
Vættir sem byggja hóla og fell
sitja und bláhimni
í söngvabið.
Tjarnir týna brosi sínu
í ómþrá.
Ár á ísum.
Fossar bundnir frera.
Tunglið fullt
varpar fölvum geislum
milli egghvassra skýjaskara.
Skuggar hlaupa langa vegu
meðal nágranna.
Seint
kemur vorið.
Stríðar
hef ég andvökur
í söngvaþrá.
Bænin brestur mig
þótt fast sé beðið
marga stund:
Himnahersir
gefðu að þráðir fuglar
– jólasöngvarar þínir
frá í vetur –
komi úr bláum fjarska.
Gefðu –
að söngvar þeirra
veki sumardali
af fannadölum.
– – –
Himininn þegir.
Allt er þögn
og kaldur klaki.
Magnast þögnin
við ölduslögin
á klakafjörum
og ýlfur stormsins
yfir storð.
Söngfuglar
nærri ókunnum stjörnum.
Sumarljóðin
blunda
í hyldýpinu
á bak við hel
og dauðans skugga.
– – –
Ó, söngvabið.
Reykjanesvita, á vordögum 1979
Nóttin helga
Nóttin helga
er alskær í myrkrinu
eina litla stund.
Og gleði okkar
er gleði barnsins.
Ilmandi grenigrein
– logandi kerti
og myndavasaklútur
verða okkur að gersemum.
Og þessa stund
uppfyllum við lögmálið:
elskum mann og annan.
Og þessa stund kyrrir Jesús vind og sjó
og breytir vatni í vín
og haltir ganga, daufir heyra,
blindir sjá og dauðir upprísa.
En næst þegar dimmir af nóttu
er myrkrið aftur samt við sig
– og breiðir dimmar blæjur sínar
yfir mig og þig.
Reykjavík á jólaföstu 1993.