Óskar Aðalsteinn


V Ö K U L J Ó Ð

fyrir alla


F j ó r i r   l j ó ð a f l o k k a r
 

Eyjavaka
Vitaljóð
Lampinn
Kjarvalskviða
 

Ægisútgáfan
Reykjavík, 1976
Copyright ©1976
All rights reserved




EYJAVAKA

 


1.  Á morgni lífsins


I

Loginn rauður
logandi eldörmum
lyfti Eyjum úr sæ.  

Gekk svo í sjö árin
hin meiri
að brimhnefar brutu
logabjörgin.  

Mikið mátti Logi blása
áður stóð
bálastorkan.

II

Reykir allir
ruku af í Eyjum.
Heimaey –
svo varstu heitin
af Valföður
á þínum fyrstu
ungu dögum.  

Sólgeislar
regn og mjúkir vindar
slógu þér vef.
Vel skal vanda kjólinn þinn
Vökudísin Ísafoldar

III

Ertu vöknuð
víst þú vakir.
Vakan er þín
innsta hræring.
Aldrei einsemd
að þér sækir.
Ysti vörður
ert þú landsins.
Vökuna finnur
í gegnum svefninn.
Vaknar hýr
á ljósum morgni.
Og vakan er þér
ljós í myrkri.


2. Eyjamynd


I

Heimaey –
í ólgangi Íslandssjónum
með úteyjum þínum
nokkrar rastir
undan svörtum sandinum
hvítum jöklinum.
Eldrúnum rist
og reiðra sjóa.
Rammíslensk í rót.

II

Söngvaglöð og björt
eru sumur þín öll
– þótt vönust sértu vosinu
svalviðrum haustsins
vetrarins þungu hafgörðum.

III

Aldrei ertu svipbjartari
né hjarta þitt hlýrra
en í mestu hafgörðunum
þegar þú hefur alheimt
menn og báta –
hrifið þá úr lífsháskanum
byrgt þá í faðmi þínum
– höfninni.


3. Eldaskráin


I

Löng er orðin
eldaskráin
þjóðar vorrar.

II

Horft var úr Eyjum.
um sævarsundin
á voðabálin:
Lakagíga.
Hekluelda.  

Þannig liðu langar aldir.

III

Brennur jökull
jafnt og grjótið
bændabýli
og fríðar lendur.
Svartir mekkir
fylla loftin
sáðu dauða
í sumarlöndin.


4. Eldnóttin


I

Heimaey –
Þessi fáu stef mín
eru með þínu sniði
og eiga heima hjá þér.

II

Eldnóttina fyrstu
var allra hugur úti í Eyjum
– og hugurinn bar mig
alla leið til þín.  

Eldnótt –
Eldurinn kominn
yfir þig.
Furðulegt er lífið.
Enginn þekkir það.
Enginn veit hvað gerist næst.  

Eldurinn smaug
í gegnum þig.
Þú varst eins og villidýr
í hafinu.
Þú varst eins og spúandi
elddreki.  

Þögn –
eins og þegar
tal og tónn
deyr út
í bíóinu.  

Við horfðum ekki
í nótt
á næstu þætti
í Eyjum
– sáum þá samt
í dagblöðunum
í sjónvarpinu.


5. Lengi var barist


I

Dögun –
allir Eyjabúar komnir
til meginlandsins
– þegar dagaði.
Það átti að koma þeim niður
í höfuðstaðnum
og á bæjunum í kring  

Dögun í Eyjum.
Svörtum gjallskúrum
rigndi yfir byggðina.

II

Lengi var barist
við eldinn í Eyjum.
Á vordögum
þegar loks slotaði
eldfárinu –
varst þú brennd að beinum
og hjartarótum
Eyjan mín.
Samt áttir þú heiðar vökustundir
að miðla fólkinu þínu.  

Það treysti því
að af tæki eldélin
með nýju sumri.
– og óskin rættist.


6. Í dreifingunni


I

Eyjafólkið –
það bar eldbyrðina
dag og nótt.
Hverja stund
var eitthvað að týnast
í eldinum
sem því var kærkomið.
Og örvæntingin varð
stundum gestur
á útlagaheimilunum.  

Og enginn hafði tölu á
– þegar komið var saman.
Örfleyg var þá stundin
– þótt framlengt væri
til fjögur eða sex.
Og enginn hafði tölu á
hversu oft ljúfu Eyjalögin
voru sungin.


7. Vor


I

Kalt var þetta eldvor
en ljómandi fagurt.
Suður á Heimaey
grænkaði í apríl.
Þar hafði aðeins fallið
örlítið af gjalli.
Og Eyjafólkið
raulaði vorljóðið:  

Fljótt kemur vorið
til Eyja.

II

Bjargfuglinn –
hann var sestur upp.
Lundinn verkaglaður
hreinsaði öskuna
frá holu sinni.
Ekki var hopað
nema fyrir eldinum.  

Fljótt kemur vorið
til Eyja.  

Enn var þraukað
í dreifingunni
þó hugur allra
væri í Eyjum.
Og fólkið fór í hópferðir
til Eyja.


8. Heimkoman


I

Eyjabærinn svartur.
Allt var svart.
Sortinn leitaði
fast á hugann.
Stund og stund
lagðist sortinn yfir
allan hugann.
Heimkomugleðin
hafði dokað við
á sundunum.  

En enga stund var hik
á Eyjafólkinu.
Það fór að eins og bjargfuglinn
tók sig til
og hreinsaði bæinn sinn.

II

Vorkór í eyjum.
Farfuglarnir komu –
þeir voru að koma
og stilltu raddir sínar
við bjargfuglakliðinn
og nývakinn vortóninn
í brjóstum fólksins.
Svo flugu þeir um alla Eyna
og úteyjarnar
– að gefa þögninni
vortóninn.  

Hvergi var nú lengur
sönglaust í Eyjum.

III

Í öllum söng
eru söngvahlé
– hinn eilífi tónn.
Þá sofa allir fuglar
með nef undir væng.
Svo kemur morguninn
og eys þá daggarúða.
Vængirnir titra
í flugtakinu.
Og mannlegur kvíði
hverfur marga stund
í vorfuglakliðnum.  

Fuglar fljúga
með strá í nefinu
Nýr söngur.
Fuglar með strá.


9. Lokastef


I

Heimaey
fjöllin þín
í grænu flosi
– þegar vorar.
Og smáálfar
fara í ferðalög
út um öll
Eyjasund
– þegar kvöldar.
Gleyma sér
í sólmóðunni
– sofna inn í
rjómalygnuna
– litla stund.
Og fugl í bjargi
– fugl í mó
fá sér blund.

 




VITALJÓÐ

 


I

Stríð er þessi ganga
í stórhríð
undir vitafjalli.
Heim er nú stefnt.
Heim í vitann.  

Fór ég hér
fyrir einu dægri
á vit manna.
Fjarðarbúa
– um auðar fjörur
svartar urðir.
Nú iðuhvítar
af fannfergi
og brimróti.

II

Skall yfir byggðina
ofsaveðrið
snemma nætur.
Náðir engar voru lengur.
Fjarðarbúar
fjölbýlingar
gengu byggðinni
vasklega til varnar.  

Þarna var ég einn af mörgum
Ég – sem alltaf ef einn.
Og þarna var barist til sigurs.
Nóttin var full af sigurópum.
Þessi æpandi nótt.  

Ónýtt er að fjasa um þetta.
Ólíkt er það öllum vitanóttum.
Maður við mann.
Alls staðar menn.
Menn – menn.

III

Fór ég einn í morgunsárið
við litla skímu – morgunglennu.
Heim var þá stefnt.
Heim í vitann.  

Stendur á mig
norðan-norna-bylurinn
Slaknar vart á veðrastrengnum.
Ólögin magnast.
Þýtur bára við vanga.
Hvergi er skjól
– margan á berangrinum kól –

IV

Langt er hvert skref
mennskum manni
í tröllasporum.
Gengur hvorki né rekur
fyrir göngumanni.  

Yfir mér leika
sem á þræði
hamrabjörgin
líkt og allt sé fjallið
á ferð og flugi.  

Sækja á hugann
allt frá mínum ungu vitadögum
skammdegismyrkrin
einmanakenndin.
Lokuðust leiðir
langa lengi.
Allar leiðir lokaðar
til manna.  

Hugðist ég gera útlegð mína
að akri.
Í aldarfjórðung hef ég reynt að yrkja ljóð úr grjóti.  

V

Ligg ég í urð
valt um gönguprikið.
Ekki er að því að spauga.
Einn í ofsaveðri
út á klakafjörum.
Hér gefst ég upp.
Nú er mér um megn
að brjótast í vitann.  

Aftur í mannheima
– og því ekki það.  

Víst má snúa aftur
Hægt er undanhaldið.
Í Firðinum er víða
frítt undir bú.
En utanhallt við byggðina
er útlaganum best að búa.  

Rís ég úr urðu.
Reyni undanhaldið.
En lokuð er leiðin.
Lemjast sjór og björg.
Lyftast mér brúnir.
Fer af mér vesöldin
– enginn sver af sér ævina alla –  

VI

Hvikar mér í brjósti
grunlaus gleði –
slík sem ég átti
á mínum ungu vitadögum.
Heyri ég í hamrinum
undrasöng –
og sé ljós af blysum
bláálfa.
Eitt er borið fyrir mér
um mjóa stigu
hátt í berginu.
Sé ég nú víða ljósin blá og rauð.
Upp um alla hamragarða
tindra ljósin blíð.  

Margt lítur glaður maður
sér til yndis.
Og margt er honum gott gert.
Góðvættir senda honum skutulsveina
að leiða hann um einstigi –
svo finni hann heimastiginn sinn.  

VII

Kominn er ég í Tröllabásinn
á nú örstutt heim.
Létta ber ég byrði.
Læt þó hallast að berginu
eina litla stund.
Vildi leita lækjar.
Kemur þá hönd úr klettagjótu
– heldur á drykkjarkeri
og ber að vörum mér.
Vex mér ásmegin
við fyrsta teyginn.
Spretta mér í huga
dynljúfar lindir.
Bragamál ný.  

Lái mér því enginn
þótt ég þreyti drykkjuna
fast og lengi.


Til baka
1