Eyjavaka
Vitaljóð
Lampinn
Kjarvalskviða
Fyrsti þáttur
I
Þið þarna úti – Fólkið úr þorpinu mínu. Bráðum erum við öll flúin til borgarinnar. Efist ekki lengur um tilgangsleysi allra hluta. Allt dreifbýlisfólkið fer sömu leiðina að leita lukkunnar í stríðsgróðanum fyrir sunnan.
Gamla fólkið sat lengst í þorpinu okkar. Við báðum það að koma suður. Svarið kom: – Hérna eigum við öll heima. Komið þið heim.
Við vorum ung og örlynd þá: Nei, ónei, við förum ekki í afskekktina. Aldrei aftur. Afskekktin – aldrei framar í okkar lífi.
II
Það komu harðir vetur. Gamla fólkið eitt heima. Margir harðir vetur í röð. Og gamla fólkið aleitt heima. Það var lengsti vetur í manna minnum.
– Kanarnir skömmuðu okkur fyrir að moka ekki –
Allir aðrir hefðu rekið okkur. Við vorum að stara heim – til gamla fólksins. Ótækt var þetta gamla fólk. Betur að við hefðum aldrei þekkt það. Betur að það hefði aldrei þekkt okkur.
III
Það ætti ekki að vera til svona fólk eins og heima – ekki til. Eins og klakahross. Sálin í því eins og í klakahrossi.
Og þorpið – norður við heimskaut. Burt með það. Að mennskar verur skuli geta lifað þar. skammdegið.
IV
Góan kom. Góan kom með blíðviðrið. Ójá, það var blíðviðri á góunni – – –
Hafísinn – hann kom á einmánuði. Flóabáturinn sótti gamla fólkið.
Við – nokkrir þorpsbúar fyrir sunnan tókum á móti gamla fólkinu á flugvellinum.
Það settist hér að. Samt var það ennþá í Þorpinu. Lampinn. Gömlu konurnar með Lampann..
V
Svona endar sagan um þorpið okkar. Það er enginn endir – en verður við að una eins og það er.
Hvað sem því líður þá höfum við komið saman ár hvert – stundum oftar að minnast gamla Þorpsins okkar og þess sem síðar hefur gerst.
Hvað hefur svo gerst? Fæst okkar hafa lent í bráðum lífsháska. Flest eigum við þak yfir höfuðið. Í stríðslukkunni var ekki tími til neins nema að strita fyrir þakinu – bílnum – börnunum. Engin stund aflögu: – til að hvílast – til að hugsa – til að lesa – til að lyfta huganum upp úr dustinu.
VI
Þarna sting ég við fótum. Flyt jafnan aðalræðuna á átthagakvöldum. En sný mig liðlega út úr glamrinu. Gömlu þvælunni. Hvort við höfum gengið til góðs . . . Vík yfir í vinsælar héraðssögur. – – –
Annars. Að vera svona fólk. Að hugsa eins og þetta gamla fólk. Afdæmt.
Friðsamleg sambúð. Brátt kemur friðsældin út um allan heim: Blaðakjaftæði. Muldur í útvarpi. Mjálm í sjónvarpi. En þessu trúið þið sem segist standa að okkur:
Gömlu þorpararnir.
Annar þáttur
I
Þið þarna úti – Aldrei þessu vant. Ég á næðisstund. Og hugurinn leitar heim í þorpið okkar.
Lampinn.
Gömlu konur – þið áttuð ekki að fara með Lampann suður – rafljósið drepur á honum.
II
Lampinn. Ljós hans í skammdeginu. Ennþá sjáum við því bregða fyrir í vitund okkar – eins og einhverju sérstöku ljósi. Eins og því ljósi sem ekki er hægt að kaupa. Stillt og rótt heimilisljós í litlu timburhúsi niðri við flæðarmálið. Ljósið svo stillt og rótt kyrrt og hljóðlátt lifandi ljós hlýtt og milt. Og stundum svo undur skært – eins og aldrei gæti komið neitt misjafnt fyrir okkur –
III
Heima – þar lá aldrei neitt á. Þar þurfti ekki að kaupa hluti svo maður yrði ánægður. Heima – hvað það er langt aftur í öldum. Þó eru það mínar aldir. Gleðin kom hægt en örugglega líka treginn – og stundum gat maður brosað hann í burtu.
IV
Einu sinni – – – Það var vor. Það var sumar – svo undur stutt Og það var haustkyrrð svo undur góð. Þú minning sem aldrei týnist: Að ganga með stúlku í fyrsta sinn. Brosa með henni. Hlaupa með henni. Horfa á allt með henni.
Svo fór hún burt.
Og minning hennar er titrandi hljómur í brjósti mínu – sem aldrei týnist. – – –
Lampinn. Ljóð æsku minnar.
I
Ekki man ég lengur nákvæmlega hvenær ég sá fyrst hávaxna manninn með háa barðastóra hattinn. En það gerir ekkert til – segjum bara að þá hafi ég verið á drengjaárunum.
Lengi tók þessi stóri maður allan hug minn. Mér fannst við eiga saman langa ævi. En það voru aðeins nokkrir sólskinsdagar og nokkrir rigningardagar. Slíkt verður fannst mér hæfa okkur best. Vinskap okkar – samveru okkar. Þetta var gott verður fyrir okkur báða.
II
Á þessum árum lék ég mér oft á Suðurtanganum. Þaðan sá yfir Mjósundin og á ströndina fyrir handan. Þar var lítið býli: Naustin. Ég þekkti Naustbóndann. Hann kom oft siglandi yfir Sundin. Og ég þekkti bátinn hans.
Oft fór ég niður á Tangann þegar ég sá bátinn koma – og setti hann upp með Þorsteini á Naustum. Hann var Skútualdarmaður. Og útþráin var hann út í heiminn. Hann var legni á enskum togurum. Svo fór hann að leita að gulli í Vatnsmýrinni. Hann var sagður ríkur þegar hann kom á Naustin. Fólkið sagði – að hann ætti m/s Gullfoss.
III
Einn dag – þegar Naustabáturinn kom yfir Sundin – stóð hávaxni maðurinn í stafni. Hann var málari landsins. Þetta voru okkar fyrstu fundir. Og þar þótti mér vera vinir sem við vorum. – í mynd hans voru engill og harpa tíðust tákna –
Hann setti svip á bæinn þá sjaldan hann kom vestur að mála – og gista bróður sinn – Naustbóndann. Sumum þótti sem hann færi aldrei alveg burt. Og það var svo hvar sem hann kom á landinu. Lengi var hann í erlendum akademíum – að læra sitt málarafag. Það kostaði morðfé – hann átti ekki neitt – nema þessa sterku þrá að sýna okkur sál landsins.
Mörg er Kjarvals sagan – og sönnust sú að myndvíkingur var hann. Mæla það margir að hann kaupi aðeins við náttúruna.
Enginn kemst hjá því að sjá þennan mann.
Allt í einu þótti mér sem mér yrðu allir vegir færir í nærveru hans. Þetta skeði nær hvert sinn sem hann leyfði mér að horfa á sig mála.
Þegar honum tókst best upp – þegar hvert pensilfar varð lífsblómstur – þá trúði ég því andartak og andartak – að ég væri maðurinn sem héldi á penslinum.
Ekki urðu allar stundir góðar í málverkinu. Komu stundir sem ekkert gerðist. Þá var Kjarval harður á svipinn. Þá var hann Skugga-Sveinn einn og yfirgefinn. Þá gat ég ekki verið hjá honum nema litla stund. Hljóp burt, lagðist í lautu og grét í blágresið.
Ég var fljótur á fæturna aftur – vissi að málarinn gat ekki gefist upp. En fyrir mitt litla líf – ég þorði ekki í stæðið til hans fyrr en ég heyrði hann syngja við verk sitt – með sínu lagi – eitthvað um glaða sumarfugla sólina og himininn.
4.
Það var engin Kjarvalsmynd – ef maður finnur ekki líf hennar í sjálfum sér. Raunar þótti mér flest gott sem birtist á léreftinu – líka það sem hann málaði yfir. Þá var Kjarval glottaralegur að gamni sínu.
Oft var hann í sama stæðinu: Stóruurð. Rétt fyrir ofan efstu húsin í bænum. Þar sem ég undi mér best í barnæsku minni. Þar sem mestu grjótdyngjurnar voru stórborgir heimsins – og lautir og grasbollar aldingarðar og rósa.
Kjarval vissi að Urðin var af sjálfum mér – og sagði við mig: að Urðarmyndir vildi hann ekki mála – nema sérstakt tilefni gæfist til þess.
Marga myndina málaði hann af klettunum í Bæjarfjallinu. Þetta voru glaðlegar myndir. Þessir þungu klettagarðar. Þar voru Hvannaskógar. Og Jónsmessugleði í Hvannaskógum. Þar dönsuðu sóldrukknar mannverur og álfar – og vissu ekki að myrkrið væri til.
5.
Fljótt verður úti þetta spjall .Við fundumst í þetta sinn aðeins í þetta eina sinn – ég og málarinn
Margt spjölluðum við saman. Marga söguna sagði ég honum af stöðunum sem hann málaði. Málarinn gladdist í sagnagleði minni – og sagði einu sinni:
Hver segir þér þessi firn af sögum?
Hann Siggi geitasmali.
Er hann alltaf með geitunum? Já alltaf – og stundum sefur hann hjá þeim inni á Dal.
Heyrðu Linga-drengur. Geitur vita allt um kletta og fjöll. Nú veit ég að Siggi geitasmali veit allt um Stóruurðina. Á hann átta geitur og einn geithafur?
Hann á tíu geitur og tvo geithafra.
Stórkostlegt. Hann er þá mesti prófessorinn í þessum bæ. Tíu geitur og tveir geithafrar. Þetta er heil akademía.
Litlu seinna sagði hann um sjálfan sig:
Lingó. Ég er alltaf að mála þetta land fram á regin-fjallaslóð – þar sem enginn er – nema ég. Og þar er landið eins og súkkulaði ef okkur langar í súkkulaði. Og þar er landið eins og rjómapönnukökur á Skálanum – ef þú ert fyrir svoleiðis.
Ég brosti ekki – rödd mín var alvarleg: En þegar þú ert á reginfjallaslóðum í aftaka veðrum – þá hefur þú sagt mér að kindurnar séu þín björgunarsveit. Ég skil þetta ekki nógu vel.
Lingó minn. Kindurnar kunna sig alltaf í lífinu – og langbest í vitlausu fjallaveðri. Þá velja þær skjólbestu staðina: Rofaborð – Hraungjótur – Hella. Svo skríð ég í bælin þeirra. En nú get ég ekki verið að kjafta þetta lengur við þig.
En skóbúðin, Kjarval. Þú sagðist ætla að kaupa þér glansstígvél – af því að allt væri svo fínt hjá okkur í rigningunni.
Ég er búinn að athuga málið. Þeir eru búnir að selja öll glansstígvél fyrir lifandis löngu. Það er alltaf von á nýrri sendingu. Þeir sýndu mér fín málverk af glansstígvélum. Þetta kom með síðustu ferð – svo fólkið gat sérð hvað það verður sjarmerandi til fótanna í rigningunni – þegar sendingin kemur með næstu ferð.
Hér grípum við niður í enn eitt samtal:
Nú skulum við tala um Skúturnar – Kjarval.
Ég hef margt að segja þér um Skútur. Kann ekkert betur en Skúturnar. Ef það kemur í þig óyndi – sem er kyrrt – þá skaltu reyna þig á sjónum.
Skipin eru bestu vinir landsins.
Listir – vísindi – trúarbrögð. Allt er þetta hjóm á móti Skipum.
Skipin eru bestu vinir þjóðarinnar.
Á Íslandi byrjar allt með skipum. Af hverju heldur þú að Steini bróðir hafi keypt helminginn af hlutabréfunum í Eimskip. Þú veist hvaða skilirí var vinsælast á hvers manns þili – eftir að við fórum aftur að eignast skip.
Já, Gullfoss – skipið hans Þorseins á Naustum.
Kjarval hló – Skugga-Sveinn hló.
6.
Nú liðu nokkrir dagar – og það var enginn Kjarval. Fregn: Kjarval að mála í næsta þorpi. Önnur fregn: Kjarval kominn suður.
Ég var alltaf að líta yfir Sundin. Nú hreyfði Þorsteinn sig ekki. Það var líka spegilsjór. Naustbóndinn nennti ekki að damla yfir á árum. Segl – drifhvít segl. Og sigla með hraðbyr. Honum gagnaði ekki minna. Hann átti gullnámur í Kaliforníu. Þetta voru ekki nýjar fréttir. Þær voru dubbaðar upp þegar ástæða þótti til.
7.
Rokgárur á Sundunum. Naustbáturinn flaug á báruföldunum. Það komu grenjandi regnsteypur. Svo kom eldlegt sólskin.
Við Þorsteinn drógum bátinn undan sjó. Þorsteinn sletti pokaskjatta á bak sér. Stundum gekk hann í hús og seldi fólki smjör og rjóma og sitthvað fleira. Svona var að vera gullkóngur í Kaliforníu og Vatnsmýrinni. Og Þorsteinn var sannur sjóli þegar hann leit til mín og sagði:
Jói bróðir spurði mig um þig strax og eldaði. Hann hefur verið að mála úti um allt. Hann er í þínu landi núna – Stóruurðinni. – – –
Þórdrunur – eldblossar. Mér fannst ég fljúga á eldingunni upp í Stóruurð.
Landsmálarinn – þarna stóð hann við trönur sínar. Léreftið þanið á grindinni eins og segl.
Hann málaði þetta stóra grjót í slagviðrinu og sagði rómsterkur:
Far vel – Lingó. Nú sigli ég. Það er komið skip. Nú sigla hvítu skipin.
Þetta stóra grjót var komið inn í myndina – og hafði rifið með sér gildar gróðurrætur mold og grastorfur.
Það var orðið illstætt í rokinu. Kjarval hafði bundið upp á sig trönurnar og myndakassann. Hann kallaði til mín í storminum:
Mundu málið þitt góða.
Hann arkaði af stað. Fast á hæla honum fóru mólitar kindur – tvílembdar.